Handbolti

Stór­sigrar hjá Dan­mörku og Noregi | Egypta­land valtaði yfir Króatíu

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Mikkel Hansen skoraði tíu mörk í kvöld.
Mikkel Hansen skoraði tíu mörk í kvöld. Kolektiff Images/Getty Images

Síðari fjórum leikjum dagsins á HM í handbolta er nú lokið. Egyptaland vann níu marka sigur á Króatíu á meðan Danmörk og Noregur unnu örugga sigra. Þetta voru fyrstu leikir liðanna á mótinu.

Egyptaland var betra frá upphafi til enda gegn Króatíu og vann á endanum sannfærandi níu marka sigur, lokatölur 31-22. Mohamed Ramadan var markahæstur í liði Egyptalands með sex mörk. Egyptaland er því komið á topp G-riðils en Króatía er á botninum.

Það verður seint sagt að Danmörk hafi átt erfitt uppdráttar gegn Belgíu en þegar flautað var til leiksloka var munurinn 15 mörk, lokatölur 43-28. Mikkel Hansen skoraði 10 mörk í liði Danmerkur og var markahæstur. Þar á eftir kom Mathias Gidsel með 9 mörk.

Danir eru eina liðið sem hefur unnið leik í H-riðli þar sem Túnis og lærisveinar Arons Kristjánssonar í Barein gerðu 27-27 jafntefli fyrr í dag.

Noregur vann einkar sannfærandi 12 marka sigur á Norður-Makedóníu, lokatölur 39-27. Sander Sagosen skoraði sex mörk í liði Noregs og var markahæstur ásamt Magnus Abelvik Rød. Sigurinn lyftir Noregi upp í toppsæti F-riðils en Holland er í 2. sæti á meðan Argentína og N-Makedónía eru án stiga.

Þá vann Serbía níu marka sigur á Alsír, lokatölur 36-27. Serbía fer með sigrinum upp í toppsæti E-riðils á meðan lærisveinar Alfreðs Gíslasonar í Þýskalandi eru í 2. sæti með lakari markatölu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×