Innlent

Skáli byggður yfir nýja tvöfalda brú yfir Stóru Laxá

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Skálinn sem hefur verið byggður yfir brúna svo hægt verði að steypa gólfið í vikunni við það hitastig, sem þarf.
Skálinn sem hefur verið byggður yfir brúna svo hægt verði að steypa gólfið í vikunni við það hitastig, sem þarf. Magnús Hlynur Hreiðarsson

Ökumenn, sem aka yfir brúna yfir Stóru Laxá í Hrunamannahreppi skammt frá Flúðum verða margir undrandi þessa dagana því við hlið brúarinnar er búið að reisa stærðar skála með plasti yfir, sem nær yfir nýja tvíbreiða brú, sem er verið að byggja á staðnum.

En af hverju er búið að byggja yfir?

„Það er bara veðrið, sem býður ekki upp á það að steypa gólf brúarinnar öðruvísi. Við ætlum að kynda og halda hita hér svo við getum steypt í vikunni en hitinn inn í skálanum verði um 10 gráður þegar steypt verður en plast er sett yfir allt þakið. Mikið frost hefur verið hér á svæðinu síðustu vikur og mikill klaki í ánni,“ segir Lárus Þorsteinsson, verkstjóri hjá Ístaki við brúarsmíðina.

Brúin er 145 metrar á lengd og um þúsund tonn af járni fara í gólfið á nýju brúni, sem verður tvíbreið og fín.

Lárus Þorsteinsson er verkstjóri hjá Ístak yfir smíði nýju brúarinnar. Magnús Hlynur Hreiðarsson

Lárus segir að hitinn inn í skálanum verði um 10 gráður þegar steypt verður en plast er sett yfir allt þakið. Mikið frost hefur verið á svæðinu síðustu vikur og mikill klaki í ánni.

Lárus segir að stefnt sé að því að byrja að steypa nýju brúnna næsta fimmtudag. En hvað verða þeir lengi að steypa.

„Það þarf 36 klukkutíma í verkið, en það á að steypa hana alveg í heilu lagi, má ekkert stoppa. Þetta eru 1260 rúmmetrar, sem fara í þetta,“ bætir Lárus við.

Það þýðir að það verða um 130 fullir steypubílar frá Steypustöðinni á Selfossi, sem koma með steypuna á staðinn.

Um 1260 rúmmetrar af steypu fara í gólfið, sem þýðir 130 steypubílar frá Selfossi.Magnús Hlynur Hreiðarsson

Lárus segist ekki vita hvenær umferð verði hleypt á nýju brúna en ekki þykir ólíklegt að Sigurður Ingi Jóhannsson, ráðherra opni brúna með borðaklippingu en hann er búsettur í næsta nágrenni við nýja mannvirkið.

Í dag er brúin einbreið yfir Stóru Laxá en nýja brúin verður tvíbreið.Magnús Hlynur Hreiðarsson



Fleiri fréttir

Sjá meira


×