Rúnar var ráðinn tímabundið til Leipzig í nóvember og sagði þá skilið við Hauka sem hann hafði tekið við síðastliðið sumar. Nú hafa forráðamenn þýska félagsins ákveðið að gera lengri samning við Rúnar.
Það kemur ekki á óvart í ljósi þess mikla viðsnúnings sem orðið hefur á gengi Leipzig með Rúnar í brúnni. Þegar hann tók við liðinu höfðu Viggó Kristjánsson og félagar aðeins unnið tvo leiki og tapað átta, og voru í þriðja neðsta sæti þýsku 1. deildarinnar. Liðið vann hins vegar fyrstu sex leiki sína í röð undir stjórn Rúnars og er nú í HM-hléinu í 12. sæti af 18 liðum með 16 stig eftir 18 leiki.
Rúnar segir á heimasíðu Leipzig í dag að hann sé mjög ánægður með fyrstu mánuðina sína hjá Leipzig. Leikmenn hafi tekið mjög vel á móti honum og hann notið þess að vinna með bæði þeim og öðrum starfsmönnum félagsins. Lífið sé gott í Leipzig og að hann sjái jafnframt tækifæri til að ná mun meira út úr liðinu á næstu misserum.
Karsten Günther, framkvæmdastjóri Leipzig, seigr að Rúnar hafi strax náð að setja sitt handbragð á lið Leipzig með hætti sem hægt sé að byggja á til framtíðar. „Þess vegna er ég mjög ánægður með að hann verði áfram aðalþjálfari hérna næstu tvö og hálfa árið og að við getum unnið saman að bjartri framtíð Leipzig.“