Lið Volda var í neðsta sæti deildarinnar fyrir leikinn í dag en Fana í baráttunni við liðin sem elta Vipers sem er langefst í deildinni.
Það var þó lið Volda sem byrjaði betur í leiknum í dag og komst meðal annars í 7-4 um miðjan fyrri hálfleikinn. Þá náði Fana hins vegar 7-1 kafla, breytti stöðunni í 11-8 en í hálfleik var staðan 14-10 gestunum í vil.
Í síðari hálfleik var eiginlega aldrei spurning hvoru megin sigurinn myndi enda. Volda hélt í við gestina í upphafi en undir lokin jókst munurinn. Lokatölur 28-19 og níu marka sigur Fana staðreynd.
Rakel Sara Elvarsdóttir skoraði tvö mörk fyrir Volda í dag og Dana Björg Guðmundsdóttir skoraði eitt. Katrín Tinna Jensdóttir lék einnig með Volda en komst ekki á blað. Hilmar Guðlaugsson er þjálfari Volda sem unnið hefur tvo leiki af þrettán í deildarkeppninni.