Slagorð keppninnar er að þessu sinni „United by Music“ eða „sameinuð með tónlist“ og rímar við aðstæður keppninnar í ár. Bretar halda keppnina í ár þrátt fyrir að atriði Úkraínu hafi endað í fyrsta sæti í fyrra en vegna stríðsins þar í landi var leitað til Breta sem lentu í öðru sæti.
Aðstæðnanna vegna er ásýnd keppninnar innblásin af fánalitum Úkraínu og ber leturgerðin sem notuð er heitið „Penny Lane“ sem vísar til tónlistarsögu Liverpool borgar.
Í kvöld kemur í ljós í hvorri undankeppninni löndin sem ekki fara sjálfkrafa í úrslit munu keppa. 31 land tekur þátt í undankeppnunum tveimur sem fara fram 9. og 11. maí næstkomandi. Aðeins tuttugu lönd komast úr undankeppnunum og í úrslit sem haldin eru þann 13. maí.
Hér að neðan má sjá beint streymi frá drættinum sem leiðir skipulag undankeppnanna í ljós. Streymið hefst klukkan 19:00 í kvöld.
Auk sigurþjóðar ársins áður fara Bretland, Frakkland, Spánn Þýskaland og Ítalía sjálfkrafa í úrslit vegna þess hve háar fjárhæðir ríkin leggja til keppninnar.
Reiknað er með því að kostnaður við það að halda keppnina verði um tuttugu milljónir punda eða 3,5 milljarðar íslenskra króna fyrir yfirvöld í Liverpool og BBC. Bróðurpartur kostnaðarins fellur þó til BBC eða allt að 17 milljónir punda. Þá greiða löndin sem keppa einnig fyrir þátttöku í keppninni.
Íslensku lögin sem keppa í Söngvakeppni sjónvarpsins um þátttöku í Eurovision í maí voru kynnt á dögunum og verður spennandi að sjá hvaða lag verður fyrir valinu og fer til Liverpool fyrir hönd lands og þjóðar.
Lög keppninnar í ár má hlusta á á íslensku og ensku hér að neðan.