Erlent

Lands­björg að­­stoðar við björgunar­að­­gerðir sem íbúi segir ó­­­skipu­lagðar

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Sólveig Þorvaldsdóttir leiðir hópinn sem heldur til Tyrklands í dag.
Sólveig Þorvaldsdóttir leiðir hópinn sem heldur til Tyrklands í dag. Landsbjörg

Yfir fimm þúsund eru látin eftir harða jarðskjálfta í Tyrklandi og Sýrlandi í gær. Íslenskur hópur sérfræðinga fer til Tyrklands síðar í dag til þess að aðstoða við björgunaraðgerðir. Kona búsett í Gaziantep í Tyrklandi segir björgunarstarf hingað til hafa virst óskipulagt. 

Níu manna sérfræðingahópur á vegum Landsbjargar heldur til Tyrklands með TF-SIF, flugvél Landhelgisgæslunnar, eftir hádegi í dag. Sólveig Þorvaldsdóttir leiðir hópinn, sem mun sinna aðgerðastjórnun.

„Við fljúgum inn til Adana. En hvað nákvæmlega tekur við síðan veit ég ekki. Það fer eftir því hvernig aðgerðirnar þróast og hvar þörfin er mest.“

Sólveig stýrði æfingu fyrir svipaðar hamfarir í Tyrklandi á síðasta ári.

„Og það munar mjög miklu, bæði fyrir okkur sem eru að fara í útkallið, að hafa tekið þátt í æfingu, og fyrir Tyrkina. Það munar öllu að æfa, og æfa á svona stöðum þar sem geta orðið svona stórir atburðir geta orðið. Já, það skiptir verulegu máli,“ segir Sólveig.

Uppfært klukkan 14:54 

Flugi TF-SIF hefur verið frestað vegna veðurs á flugleiðinni. Í tilkynningu frá Gæslunni segir að staðan verði endurmetin í fyrramálið.

Björgunarstarf virðist óskipulagt

Eygló Guðmundsdóttir er búsett í Gaziantep í suðurhluta Tyrklands. Hún varði nóttinni í skóla í borginni ásamt mörgum öðrum, en hún býr á sjöttu hæð í fjölbýlishúsi. Fréttastofa ræddi við hana í morgun.

Hún segir óráðið hvenær hún snýr aftur þangað.

Eygló Guðmundsdóttir er búsett í Gaziantep. Hún gisti í skóla í borginni í nótt.Aðsend

„Ég þarf bara að ræða við þau hversu lengi ég get verið hérna. Við erum bara öll að bíða eftir frekari upplýsingum. Ég er komin með eitthvað app þar sem eiga að koma fréttir en það hefur ekki verið uppfært síðan í gær,“ segir Eygló.

Víða sé enn verið að leita að fólki í húsarústum.

„Ég hitti hérna konu áðan, hún er tyrknesk og maðurinn hennar er í hernum. Hún sagði mér að [björgunarstarf] hafi verið frekar óskipulagt.“

Hún hafi heyrt af því að skortur sé á tækjum til björgunarstarfs.

„Bara það að hún segi mér að það sé verið að bera fólk á bakinu og ekki með börur,“ segir Eygló.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×