Innlent

Heiða Kristín fetar tíma­bundið í fót­­spor eigin­­mannsins með Þor­­gerði

Bjarki Sigurðsson skrifar
Heiða Kristín Helgadóttir er nýr aðstoðarmaður Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur.
Heiða Kristín Helgadóttir er nýr aðstoðarmaður Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur.

Heiða Kristín Helgadóttir er nýr aðstoðarmaður Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, formanns Viðreisnar. Heiða mun starfa sem aðstoðarmaður hennar fram að sumri. Eiginmaður hennar aðstoðaði Þorgerði árið 2017. 

Bjarni Halldór Janusson, fyrrverandi yngsti þingmaður Alþingissögunnar, var aðstoðarmaður Þorgerðar Katrínar þar til nýlega. Hann stefnir nú á doktorsnám í stjórnmálafræði.

Heiða Kristín starfaði sem ráðgjafi Jóns Gnarrs er hann var borgarstjóri en Heiða var ein af stofnendum Besta flokksins og leiddi herferð flokksins í borgarstjórnarkosningunum árið 2010.

Þremur árum síðar stofnaði hún Bjarta framtíð ásamt Guðmundi Steingrímssyni og starfaði sem formaður flokksins þar til undir lok 2014. Hún var varaþingmaður flokksins og sat á þingi í fjarveru Bjartar Ólafsdóttur á meðan hún var í fæðingarorlofi. 

Heiða er menntaður stjórnmálafræðingur og er gift Guðmundi Kristjáni Jónssyni. Guðmundur aðstoðaði sjálfur Þorgerði þegar hún var sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Saman eiga þau rúmlega eins og hálfs árs son sem vakti mikla athygli í Ísland í dag í sumar. Þá var hann fjórtán mánaða gamall og var ekki kominn með leikskólapláss. 

Viðtalið við Heiðu og Guðmund í Ísland í dag hefst eftir átta mínútur og þrjátíu sekúndur í spilaranum hér fyrir neðan.

Klippa: Ísland í dag - Viðtal við smábarn í stúdíói fer næstum því úr böndunum



Fleiri fréttir

Sjá meira


×