Fótbolti

Salzburg og Shakhtar með yfirhöndina en jafnt hjá Ajax og Union Berlin

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Nicolas Capaldo skoraði eina mark leiksins er Salzburg hafði betur gegn Roma.
Nicolas Capaldo skoraði eina mark leiksins er Salzburg hafði betur gegn Roma. Adam Pretty/Getty Images

Alls er fjórum af átta leikjum kvöldsins í Evrópudeildinni í fótbolta nú lokið. Salzburg og Shakhtar Donetsk unnu nauma sigra gegn Roma og Rennes, en Ajax og Union Berlin skildu jöfn í Hollandi.

Nicolas Capaldo skoraði eina mark leiksins á 88. mínútu þegar Salzburg vann 1-0 sigur gegn José Mourinho og lærisveinum hans í Roma í kvöld og Rómverjar hafa því verk að vinna á heimavelli að viku liðinni.

Sömu sögu er að segja um franska liðið Rennes sem mátti þola 2-1 tap gegn úkraínska liðinu Shakhtar Donetsk. Dmytro Kryskiv og Artem Bondarenko sáu um markaskorun Shakhtar Donetsk í fyrri hálfleik áður en Karl Toko Ekambi minnkaði muninn um miðjann síðari hálfleik.

Ajax og Union Berlin eru hins vegar enn á byrjunarreit eftir markalaust jafntefli liðanna í Hollandi á sama tíma.

Þá var einnig leikið í Sambandsdeildinni á sama tíma. Fiorentina vann öruggan 4-0 útisigur gegn SC Braga, Qarabag vann 1-0 sigur gegn Gent og Trabzonspor vann 1-0 sigur gegn Basel. Bodö/Glimt og Lech Poznan gerðu hins vegar markalaust jafntefli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×