Í gær tilkynntu allir stóru viðskiptabankarnir þrír, Landsbankinn, Íslandsbanki og Arion-banki, um hækkanir á út- og innlánsvöxtum, eftir núll komma fimm prósentustiga stýrivaxtahækkun Seðlabankans í síðustu viku.
Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna, hefur ítrekað gagnrýnt bankana fyrir að vera fljótir að hækka vexti, en heldur lengur að lækka þá. Hann segir fréttir gærdagsins því koma lítið á óvart.
„Þetta sýnir bara það að samkeppnin á fjármálamarkaði á Íslandi er verulega ábótavant. Þar sem samkeppni skortir eru allar svona hækkanir fljótari að leka út í verðlagið,“ segir Breki í samtali við fréttastofu.
Fyrirtæki eigi að þurfa að hugsa sig tvisvar um
Breki kallar eftir aukinni samkeppni í þessum málum.
„Við búum náttúrulega á fákeppnismarkaði og kannski að beina því til neytenda á hvaða markaði sem er að leita alltaf ódýrustu kosta og skipta við þau fyrirtæki sem bjóða best og hafa hag neytenda fyrir brjósti.“
Fyrir liggi að Íslendingar búi við mjög sveiflukennt hagkerfi. Því þurfi að breyta.
„Við þurfum að gera allt sem við getum til að auka stöðugleika hér, því að við svona rússíbanahagkerfi verður ekki unað. Það skekkir allan samanburð og veikir verðvitund neytenda, og er á allan hátt slæmt fyrir okkur öll.“
Það séu ýmis ráð sem hægt væri að grípa til.
„Það má efla neytendavernd, efla eftirlit með leikendum á neytendamarkaði og gera ýmislegt til að auka aðhald með fyrirtækjum þannig að þau hugsi sig tvisvar um að beina öllum kostnaðarhækkunum yfir á neytendur,“ segir Breki.