Sampdora situr í næst neðsta sæti Serie A deildarinnar á Ítalíu og það er staða sem stuðningsmenn félagsins eru vitaskuld ekki sáttir með.
Í janúar fékk félagið nafnlausa hótun í formi bréfs en einnig hafði byssukúla verið skilin eftir í umslaginu.
„Í þetta skiptið er kúlan laus. Næst verður hún í alvöru,“ stóð í bréfinu en það var stílað á fyrrverandi forseta félagsins Massimo Ferrero og núverandi varaforsetann Antonio Romei.
Nú hefur félagið fengið nýja hótun en á dögunum var skilinn eftir kassi við höfuðstöðvar félagsins en hann var merktur þeim Ferrero og Romei, Í kassanum var svínshöfuð en að nota dýrahöfuð til hótana er þekkt aðferð og muna margir eftir því úr kvikmyndinni Guðfaðirinn þegar karakterinn Jack Woltz vaknaði með hrosshaus í rúminu sem hótun frá sjálfum guðföðurnum Don Corleone.
Í bréfi sem fylgdi með stóð „Næsta höfuð er ykkar“ og í yfirlýsingu Sampdoria segir að að félagið líti alvarlegum augum á atvikið.
„UC Sampdoria vill undirstrika að hvers kyns hótun gagnvart stjórnarmeðlimi er árás á alla stjórnarmenn og þeirra vinnu.“