Handbolti

Þeytir skífum á kvöldin og nemur lífeindafræði á daginn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Stiven Tobar Valencia þeytir reglulega skífum á skemmtistaðnum Auto.
Stiven Tobar Valencia þeytir reglulega skífum á skemmtistaðnum Auto. vísir/sigurjón

Stiven Tobar Valencia er ekki maður einhamur. Auk þess að vera einn besti leikmaður Olís-deildarinnar í handbolta er hann plötusnúður og stundar háskólanám í lífeindafræði.

Stiven leikur sína fyrstu landsleiki þegar Ísland mætir Tékklandi í tveimur leikjum í undankeppni EM 2024 í næsta mánuði. Hann stefnir hátt og dreymir um að spila fyrir bestu lið heims.

Stiven lætur sér ekki nægja að spila handbolta heldur er hann líka plötusnúður og á lokaári í námi í lífeindafræði. Guðjón Guðmundsson hitti þennan magnaða dreng sem virðist hafa fleiri klukkutíma í sólarhringnum en aðrir.

„Maður þarf að púsla deginum saman og vera ákveðinn. Þetta er bara skipulagning,“ sagði Stiven sem spilar oftast á skemmtistöðum eftir miðnætti.

„Margir halda að þetta fari ekki vel við handboltann en þetta er ekkert annað en vinna. Gaman á kvöldin, að geta sett á smá tónlist sem maður fílar og tryllt lýðinn.“

En hvenær sefur Stiven?

„Ég sef alltaf á mjög góðum tíma og næ alltaf átta tíma svefni. Maður sefur aðeins meira um helgar,“ svaraði Stiven.

Klippa: Viðtal við DJ Stiven

Sem fyrr sagði er Stiven að ljúka námi í lífeindafræði við Háskóla Íslands.

„Ég veit ekki hvernig ég kemst yfir þetta. Ég er bara svolítið ákveðinn í því sem ég geri. Ég hef alltaf haft áhuga á náttúrufræði og rannsóknarvinnu yfirhöfuð,“ sagði Stiven sem tekur undir að hann sé góður námsmaður.

„Það sem ég hef áhuga á finnst mér mjög gaman að gera. Þetta er svo vítt og mikið efni og skemmtilegt. Ég myndi segja að ég væri frekar góður í að gera það sem mér finnst gaman að gera.“

Allt viðtalið við Stiven má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×