Þessi 38 ára gamli Brasilíumaður gæti því verið frá í langan tíma, en félagið hefur ekki gefið út hversu lengi búist er við að meiðslin muni halda Silva frá knattspyrnuvellinum.
Þó að ekki sé vitað hversu lengi Silva verður frá keppni er þó ljóst að leikmaðurinn verður ekki með Chelsea er liðið mætir Dortmund í seinni leik liðanna í Meistaradeild Evrópu í næstu viku. Chelsea er 1-0 undir í einvíginu og er Meistaradeildin seinasti möguleiki Chelsea á titli á tímabilinu.
Þá mun liðið einnig ekki geta nýtt krafta Silva er liðið tekur á móti Leeds í ensku úrvalsdeildinni næstkomandi laugardag. Gengi Chelsea í deildinni hefur verið afleitt á tímabilinu og liðið situr í tíunda sæti með 31 stig eftir 24 leiki, heilum fjórtán stigum frá Meistaradeildarsæti. Þá hefur liðið aðeins unnið tvo deildarleiki af seinustu fimmtán.
Silva hefur þó verið einn af ljósu punktum tímabilsins hjá liðinu og þrátt fyrir að vera orðinn 38 ára gamall skrifaði hann undir eins árs framlengingu á samningi sínum fyrr í mánuðinum og mun hann því leika með liðinu út næsta tímabil í það minnsta.