Sport

Gullna amman í heims­meta­ham á leið sinni að þriðja EM-gullinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Elsa Pálsdóttir hefur verið á ótrúlega glæsilegri sigurgöngu undanfarin þrjú ár og hún hélt áfram í gær.
Elsa Pálsdóttir hefur verið á ótrúlega glæsilegri sigurgöngu undanfarin þrjú ár og hún hélt áfram í gær. Fésbók/Elsa Pálsdóttir

Elsa Pálsdóttir varð í gærkvöldi Evrópumeistari þriðja árið í röð á EM öldunga í Búdapest í Ungverjalandi.

Elsa setti þrjú heimsmet og þar með þrjú Evrópumet á leið sinni að Evrópugullinu. Elsa var með mikla yfirburði í mínus 76 kílóa flokki í Master 3.

Elsa lyfti 138 kílóum í hnébeygju (heimsmet), 67,5 kílóum í bekkpressu (Íslandsmet), 170 kílóum í réttstöðulyftu (heimsmet) og samanlagt fóru því 375,5 kíló á loft (heimsmet).

Hún varð einnig næst stigahæst yfir alla þyngdarflokkana í Master 3 en það eru keppendur á aldrinum 60 til 69 ára.

Elsa hefur verið á samfelldri sigurgöngu síðan að hóf að æfa klassískar kraftlyftingar. Hún hefur unnið Evrópumeistaratitil þrjú ár í röð og enn fremur heimsmeistaratitil undanfarin tvö ár.

Hún hefur líka margbætt heimsmetin á þessum tíma og er því á mikilli uppleið sem íþróttakona á sjötugsaldri.

Elsa er fædd árið 1960 og verður því 63 ára gömul á þessu ári. Hún æfir lyftingar hjá Massa í Njarðvík en hefur ekki æft klassískar kraftlyftingar nema í rúmlega fjögur ár en hún keppti fyrst í greininni haustið 2019.

Gott dæmi um bætingarnar hjá henni er að þegar hún varð Evrópumeistari í fyrsta sinn árið 2021 þá lyfti hún 130 kílóum í hnébeygju, 60 kílóum í bekkpressu (Íslandsmet), 157,5 kílóum í réttstöðulyftu og samanlagt fóru því 347,5 kíló á loft á því móti.

Hún hefur því bætt heimsmetið um átta kíló í hnébeygju, um 12,5 kíló í réttstöðulyftu og þar með um 28 kíló samanlagt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×