Enski boltinn

Endurgreiða Liverpool-fólki hálfan milljarð

Sindri Sverrisson skrifar
Mildi þykir að enginn skyldi látast í troðningnum sem myndaðist fyrir utan Stade de France í fyrra, á úrslitaleik Meistaradeildarinnar. UEFA bar meginábyrgð á því sem á gekk.
Mildi þykir að enginn skyldi látast í troðningnum sem myndaðist fyrir utan Stade de France í fyrra, á úrslitaleik Meistaradeildarinnar. UEFA bar meginábyrgð á því sem á gekk. Getty/Matthias Hangst

UEFA, knattspyrnusamband Evrópu, hefur ákveðið að endurgreiða öllu Liverpool-stuðningsfólki sem átti miða á úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu í París í fyrra.

Liverpool tapaði fyrir Real Madrid í úrslitaleiknum en leikurinn hófst 36 mínútum síðar en áætlað var vegna vandræða utan vallar.

Mikill fjöldi stuðningsmanna komst þar ekkert áleiðis á leið inn á leikvanginn og var táragasi meðal annars beitt á fjöldann, eins og sjá mátti á myndskeiðum þar sem meðal annars voru grátandi börn innan um aðra stuðningsmenn.

Samkvæmt óháðri skýrslu bar UEFA aðalábyrgð á því sem á gekk og nú hefur sambandið samþykkt að endurgreiða stuðningsfólki Liverpool, eða alls 19.618 miða.

Samkvæmt grein The Guardian mun þetta kosta UEFA um 3 milljónir punda, eða jafnvirði yfir hálfs milljarðs íslenskra króna.

UEFA og frönsk yfirvöld reyndu í upphafi að kenna miðalausu stuðningsfólki um það sem á gekk fyrir utan leikvanginn en samkvæmt fyrrnefndri skýrslu voru engar sannanir sem studdu þann málflutning. Talin var mesta mildi að allir skyldu sleppa lifandi frá látunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×