Krabbameinsfélagið segir að Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, hafi sýnt verkefninu ómetanlegan stuðning síðan fyrstu sokkarnir voru framleiddir árið 2018. „Krabbameinsfélagið er afar þakklátt forsetanum fyrir aðstoðina við að vekja athygli á mikilvægi þess að karlmenn hugi að heilsunni og dragi það ekki að leita til læknis séu þeir með einkenni,“ segir í tilkynningu frá félaginu.
Yfirskrift átaksins í ár er „Ekki humma fram af þér heilsuna“ og vísar til þess að nýleg rannsókn Krabbameinsfélagsins sýndi fram á að karlmenn sem greindust með krabbamein eftir að hafa fundið fyrir einkennum biðu margir í langan tíma með að leita til læknis.
Það er alltaf ný hönnun á sokkunum á hverju ári. Fatahönnuðurinn Rakel Sólrós Jóhannsdóttir og grafíski hönnuðurinn Þórdís Claessen hjá 66°Norður hönnuðu sokkana sem seldir eru í ár.
„Sala sokkanna er burðarliður í fjáröflun fyrir öflugt rannsókna- og forvarnarstarf og mikilvæg verkefni í þágu einstaklinga sem greinst hafa með krabbamein og aðstandenda þeirra, en starfsemi Krabbameinsfélagsins byggir alfarið á styrkjum einstaklinga og fyrirtækja.“
Sokkarnir koma í sölu 9. mars á hátt í 400 sölustöðum um land allt og í vefverslun Krabbameinsfélagsins.