Pogba var nýkominn aftur eftir meiðsli og hafði spilað tvo leiki með Juventus áður en hann tognaði við að taka aukaspyrnur á æfingu. Vegna meiðslanna verður hann frá í þrjár vikur.
„Í morgun [í gær] fékk Pogba sting í vöðva þegar hann var að taka aukaspyrnur,“ sagði Max Allegri, knattspyrnustjóri Juventus, eftir 4-2 sigur liðsins á Sampdoria í ítölsku úrvalsdeildinni í gær.
„Hann fer í frekari skoðun en verður ekki með á fimmtudaginn og næsta sunnudag svo við sjáum hann bara eftir landsleikjahléið,“ bætti Allegri við.
Pogba hefur ekki átt sjö dagana sæla síðan hann kom til Juventus frá Manchester United í sumar. Hann hefur aðeins spilað tvo leiki á öllu tímabilinu og forráðamenn Juventus ku vera óánægðir með hugarfar Frakkans.
Pogba var til að mynda tekinn út úr hópi Juventus fyrir fyrri leikinn gegn Freiburg í Evrópudeildinni í síðustu viku fyrir að mæta of seint í kvöldverð með liðinu.
Juventus mætir Freiburg í seinni leiknum gegn Freiburg í sextán liða úrslitum Evrópudeildarinnar á fimmtudaginn og svo Inter í ítölsku úrvalsdeildinni á sunnudaginn kemur.