Lið hans, FCK frá Kaupmannahöfn, tilkynnti á heimasíðu sinni í dag að Hákon Arnar hafi endurnýjað samning sinn við félagið.
Nýi samningurinn hjá þessum nítján ára strák nær nú til ársins 2027 og er hann því á samning hjá félaginu næstu fjögur árin eða þar til að hann verður 23 ára gamall.
Hákon varð í vetur fjórði Íslendingurinn frá upphafi til að skora í Meistaradeildinni þegar hann skoraði í 1-1 jafntefli FCK á móti þýska liðinu Dortmund á Parken.
„Hákon er einn af áhugaverðustu ungu leikmönnum sem ég hef séð í Danmörku í mörg ár,“ sagði Peter Christiansen, íþróttastjóri FCK, í viðtali á heimasíðu danska félagsins.
„Þetta eru stór orð en augljóslega trúum við því að hann sé afar hæfileikaríkur leikmaður. Hann hefur ekki aðeins sýnt að hann getur gert útslagið í dönsku úrvalsdeildinni heldur einnig í Meistaradeildinni og með landsliðinu sínu,“ sagði Christiansen.
Hákon kom til FCK þegar hann var aðeins sextán ára gamall en hefur síðan unnið sig upp í stórt hlutverk hjá aðalliði félagsins.
Á síðasta ári þá hjálpaði hann FCK að vinna danska meistaratitilinn.