Leikurinn er hluti af úrslitakeppni efstu sex liða deildarinnar sem búið er að skipta í tvennt. Juventus var fyrir leikinn í öðru sæti deildarinnar, átta stigum á eftir Roma, en Inter í þriðja sætinu átta stigum á eftir Juventus.
Það voru gestirnir í Juventus sem voru sterkari aðilinn í dag. Linda Sembrant kom liðinu yfir á 15. mínútu og staðan í hálfleik var 1-0. Sara Björk kom Juventus síðan í 2-0 þegar hún skoraði með skalla eftir sendingu Arianna Caruso og liðið komið í góða stöðu.
Tabitha Cahwinga minnkaði muninn fyrir Inter þegar fimm mínútur voru eftir en á lokamínútunni skoraði Barbara Bonansea þriðja mark gestanna og tryggði liðinu góðan sigur.
Anna Björk Kristjánsdóttir var í leikmannahópi Inter í dag en sat allan tímann á varamannabekk liðsins.
Juventus er nú fimm stigum á eftir Roma í töflunni sem á leik til góða.