„Enda er þetta frábært námskeið til að skerpa á hugmyndum og góð leið til að tengjast nýsköpunarumhverfinu á Norðurlöndum.“
Í gær og í dag fjallar Atvinnulífið um VC Challenge námskeiðið en að því standa KLAK ásamt Startup Norway, Helsinki Partners, Canute og Nordic Node. Meðal bakhjarla verkefnisins er sjóðurinn Kría sem er í eigu íslenska ríkisins og hefur það hlutverk að fjárfesta í vísisjóðum.
Allra hagur að efla vísisjóðina
Kría, sprota- og nýsköpunarsjóður, var stofnaður árið 2021 og segir Sæmundur fjárfestingastefnu og reglugerð sjóðsins nokkuð skýra, Kría sé sjóðasjóður sem fjárfesti í öðrum vísisjóðum.
Kría hóf starfsemi síðla árs 2021 en á því ári fjárfesti sjóðurinn í þremur sjóðum sem heita Crowberry Capital II, Frumtak Ventures 3 og Eyrir Vöxtur.
Fjárfestingar í sjóðunum þremur námu um 2.240 þúsund milljónum króna, en þessar vikurnar er opið fyrir umsóknir um fjárfestingu frá Kríu frá nýjum vísisjóðum og er umsóknarfrestur til og með 28. apríl næstkomandi.
Að þessu sinni getur Kría fjárfest fyrir allt að einum milljarði króna í vísisjóðum.
Sæmundur segir aðkomu Kríu sem bakhjarli í verkefni eins og VC Challenge ríma vel við markmið og stefnu sjóðsins því sjóðurinn fjárfesti ekki sjálfur beint í sprotafyrirtækjum heldur aðeins í vísisjóðum sem sérhæfa sig í fjárfestingum og fjármögnun sprotafyrirtækja.
Hann telur afar mikilvægt að sjóðsstjórar framtíðarinnar hljóti góða þjálfun enda sé umhverfi fjárfestinga í nýsköpun um margt mjög ólík öðru fjárfestingarumhverfi.
„VC Challenge er að þessu leyti partur af því að efla þetta umhverfi, sem er að þroskast og þróast með hverju árinu sem líður,“ segir Sæmundur.
Þá segir hann fjárfestingaumhverfi með öfluga vísisjóði vera af hinu góða.
Það er að eiga sér stað ákveðinn þróun erlendis þar sem sífellt fleiri einstaklingar, fjöldskyldusjóðir og aðrir stofnanafjárfestar horfa í meira mæli til fjárfestinga í vísisjóðum, samhliða öðrum eignaflokkum, þar með talið beinum fjárfestingum í sprota – og nýsköpunarfyrirtækjum.
Að efla vísisjóði í nýsköpunarumhverfinu getur þar af leiðandi verið hvati til að fá fleiri fjárfesta til að horfa til fjárfestinga í íslenskri nýsköpun,“
segir Sæmundur og bætir við:
„Þessi sérhæfing sjóðanna og áherslur á sprotafyrirtæki skipta líka miklu máli því fjárfestingar í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum geta verið nokkuð flókið, tímafrekt og oft á tíðum mikið langtímaverkefni.“

Þurfum að vera alþjóðleg
Sæmundur segir að þótt Kría sé nýlegur sjóður á Íslandi hafi sambærilegir sjóðir verið reknir víða erlendis.
„Það eru svipaðir sjóðir reknir í til dæmis Danmörku, Svíþjóð, Finnlandi, Noregi, Eistlandi og Póllandi svo dæmi séu tekin og eins var sambærilegur sjóður í Ísrael. Hugsunin alls staðar er að styðja við sprotaumhverfið án þess að ríkið sjálft sé að taka ákvarðanir um einstakar fjárfestingar. Þess í stað eru þær ákvarðanir settar í hendur sjóðanna sjálfra, sem eru sérhæfðir. Það er því í samræmi við stefnu og starfsemi Kríu að efla þá sem best.“
Sæmundur segir starfsemi Kríu byggja á nýsköpunarstefnu stjórnvalda til ársins 2030.
„Fjármagn sem þetta þarf að vera þolinmótt því þarna erum við oft að tala um fjárfestingar þar sem sjóðirnir binda fjármagn til 10 ára. Í sumum geirum, til dæmis líftækni, getur þetta þýtt enn lengri tími, til dæmis tíu til fimmtán ár, en almennt erum við að sjá það í þessum erlendu sjóðum að verið er að horfa til um 10 ára líftíma í senn.“
Þá segir hann það jákvætt fyrir starfsemi Kríu að fleiri íslenskir sjóðir taki til starfa.
Að hér á landi séu reknir margir öflugir vísisjóðir er mjög af hinu góða og eykur líkur þess að enn fleiri fjárfesti í vísisjóðum og nýsköpun, sem aftur leiðir til þess að fleiri sprotar komast að og við horfum til fleiri sjóða til að fjárfesta í.
Í okkar tilviki horfum við reyndar líka til þess að eignarhald sjóðanna sé frekar dreift og að sjóðsstjórar búi yfir mikilli reynslu í fjárfestingum í nýsköpun.“
Sæmundur segir Kríu einungis samstarfsaðila VC Challenge líkt og aðrir norrænir sjóðasjóðir séu með því að styrkja framkvæmd þess og uppbyggingu.
„Við komum ekki að þjálfun sjóðsstjóra með beinum hætti en höfum komið að verkefninu í til dæmis stefnumótunarvinnunni, vinnu sem snýr að innihaldi námskeiða, að hjálpa til að fá mentora eða gestafyrirlesara og fleira.“
Þá segir Sæmundur þau tækifæri sem VC Challenge námskeiðið geti opnað í alþjóðlegri tengslamyndun erlendis afar jákvæða.
„Við erum auðvitað lítill markaður og háð því að geta komið íslenskri nýsköpun í útflutning – við viljum byggja upp frekari útflutning byggðum á hugviti. VC Challenge námskeiðið er þannig samstarfsverkefni að það getur hjálpað nýjum sjóðsstjórum að tengjast inn á markaði, jafnvel markaði sem þeir hefðu átt erfiðara með að komast inn á eða að sanna sig á ef ekki væri fyrir þetta námskeið og þær tengingar sem myndast. Og þar sem eitt af langtímamarkmiðum Kríu er að hérlendis verði til alþjóðlegra sambærilegt fjárfestingaumhverfi fyrir sprotafyrirtæki í nýsköpun, að þá fellur það mjög vel að okkar áherslum í alla staði að geta stutt við bakið á verkefninu.“