Uppfærð fimm ára fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar til ársins 2018 er nú til umræðu á Alþingi. Áður en hún hófst sagði Guðmundur Ingi Kristinsson þingmaður Flokks fólksins í umræðum um störf þingsins og sagði að eftir langa bið skilaði áætlunin engu til þeirra sem lakast stæðu.

„Ofsatrúarríkisstjórnin sem lifir í blindri trú um stjórnmálastefnu sína eins og hún sé einhver töfrabrögð er hættuleg fátæku fólki. Félagslega heft ofsatrú þeirra á eigið ágæti og þeirra útgáfu af sannleikanum um hækkanir lífeyrislauna er helber ímyndun af verstu gerð. Sem bitnar bara á þeim verst settu í formi vöntunar á mat og öðrum nauðsynjum,“ sagði Guðmundur Ingi.
Ríkisstjórnin ætlaði að setja smáaura í endurskoðun örorkulífeyriskerfisins árið 2025. En ríkisstjórnin áætlar að setja 15 milljarða aukalega í málaflokkinn við endurskoðun kerfisins.

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir þingmaður Viðreisnar gagnrýndi fjármálaáætlunina úr annarri átt. Augljóst væri að fjármálaráðherra tæki til sín að markaðurinn hefði misst trú á því að Sjálfstæðisflokkurinn gæti náð verðbólgunni niður og stýrt efnahagsmálunum. Engar raunverulegar aðgerðir til hagræðingar væru í fjármálaáætluninni.
„Útgjaldapólitíkin er enn þá hin sama. Það er ekkert talað um að lækka svimandi háan vaxtakostnað íslenska ríkisins sem myndi hjálpa að ná niður verðbólgu,“ sagði Þorbjörg Sigríður. Lítið færi fyrir aðgerðum núna, þeim væri skotið á frest.
„Fjármálaáætlunin er eins og geggjað aðhaldsprógram sem byrjar 2024. Skilar þjóðinni kannski í kjólinn fyrir jólin 2028,“ sagði þingmaður Viðreisnar.

Stjórnarþingmaðurinn Líneik Anna Sævarsdóttir Framsóknarflokki sagði fjármálaáætlunina hins vegar innihalda fjölda aðgerða í baráttunni við verðbólguna. Til varnar þeim sem lakast stæðu í samfélaginu.
„Sem sýnir þá stefnu ríkisstjórnarinnar svart á hvítu að rétt sé að beita ríkisfjármálum meðmarkvissum hætti til að ná niður verðbólgu og koma í veg fyrir frekari hækkun vaxta. Með auknu aðhaldi, tekjuöflun og frestun framkvæmda,“ sagði Líneik Anna Sævarsdóttir.