Magdeburg mætti Bergischer á útivelli í dag og það voru heimamenn sem leiddu með einu marki í hálfleik, staðan þá 17-16 Bergischer í vil.
Í síðari hálfleik tók hins vegar Magdeburg völdin. Liðið náði frumkvæðinu strax í upphafi og komst þremur mörkum yfir í stöðunni 24-21 þegar tíu mínútur voru liðnar.
Magdeburg komst mest fjórum mörkum yfir og hélt forystunni allt til enda. Lokatölur 38-34 og Magdeburg nú jafnt Kiel að stigum í 2.-3. sæti en Kiel á leik til góða. Kiel og Magdeburg mætast í stórleik á páskadag.
Gísli Þorgeir skoraði tvö mörk úr þremur skotum í dag en Kay Smits átti stórleik fyrir Magdeburg og skoraði fjórtán mörk úr fimmtán skotum.
Fusche Berlin er efst í deildinni, einu stigi á undan Kiel og Magdeburg, en Berlínarrefirnir unnu góðan útisigur á Hannover-Burgdorf í dag í fyrsta heimatapi Hannover-Burgdorf á þessu almanaksári. Fusche Berlin leiddi 18-15 í hálfleik og en leikurinn var afar spennandi undir lokin.
Fusche Berlin nýtti sínar lokasóknir vel á meðan Hannover-Burgdorf klikkaði í dauðafærum. Lokatölur 33-32 og Berlin lyftir sér þar með í efsta sætið, um stundarsakir að minnsta kosti.
Rúnar Sigtryggsson og lærisveinar hans í Leipzig töpuðu á útivelli gegn Flensburg. Lokatölur þar 30-27 og Leipzig því áfram í níunda sæti deildarinnar. Viggó Kristjánsson er fjarri góðu gamni hjá Leipzig vegna meiðsla.