Þúsundir karlmanna flúðu Rússland eða fóru í felur eftir að Vladímír Pútín Rússlandsforseti tilkynnti að 300.000 varaliðsmenn yrði kvaddir í herinn vegna innrása hans í Úkraínu í september. Frumvarp sem var hraðað í gegnum rússneska þingið á að koma í veg fyrir slíkan atgervisflótta.
Fram að þessu hafa yfirvöld þurft að afhenta herkvöddum mönnum kvaðninguna í persónu. Margir rússneskir karlmenn forðuðust herkvaðningu með því að halda sig frá þeim stað þar sem þeir voru skráðir til heimilis.
Með frumvarpinu sem efri deild þingsins samþykkti í dag verður herkvaðning enn send í pósti en telst gild frá því að hún er færð inn í opinbera vefgátt. Herkvöddum mönnum sem sinna ekki kallinu verður bannað að yfirgefa Rússland, ökuskírteini þeirra verður fellt úr gildi og þeim bannað að selja íbúðir eða aðrar eignir.
Neðri deild þingsins samþykkti frumvarpið á þriðjudag. Búist er við því að Pútín staðfesti lögin fljótt með undirskrift sinni, að sögn AP-fréttastofunnar.
Stjórnarandstæðingar og mannréttindafrömuðir segja að lögin séu skref í átt að „stafrænu fangelsi“ sem færi heryfirvöldum fordæmalausar valdheimildir.
Straumlínulaga herkvaðningarkerfið
Flýtimeðferðin sem frumvarpið fékk í rússneska þinginu vekur ótta margra um að Pútín ætli að kveðja fleiri menn í herinn í aðdraganda gagnsóknar gegn innrásarhernum sem búist er við að Úkraínumenn hefji á allra næstu vikum.
Stjórnvöld hafa sagt að önnur herkvaðning sé ekki yfirvofandi. Dmitrí Peskov, talsmaður Kremlarstjórnar, segir að nauðsynlegt hafi verið að samþykkja frumvarpið til þess að „straumlínulaga“ herskráningar- og kvaðningarkerfið.