Frá þessu var fyrst greint á Fótbolta.net og vísað í yfirlýsingu frá lögreglunni í Manchester. Vísir hefur nú fengið sömu yfirlýsingu þar sem segir:
„Hinn 33 ára maður sem handtekinn var í tengslum við rannsókn sem hófst í júní 2021 er laus allra mála. Rannsóknarteymið og saksóknarembætti krúnunnar hafa unnið saman og komist að þeirri niðurstöðu að þau sönnunargögn sem liggi fyrir á þessum tímapunkti nái ekki þeim þröskuldi sem fellur að reglum saksóknara krúnunnar.“
Gylfi var handtekinn á heimili sínu í Manchester 16. júlí 2021. Gylfi var þá liðsmaður Everton og kom fram í breskum fjölmiðlum nokkrum dögum síðar að 31 árs gamall leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar hefði verið handtekinn, grunaður um kynferðisbrot gegn ólögráða einstaklingi, og síðar sleppt gegn tryggingu.
Í yfirlýsingunni sem lögreglan sendi frá sér í dag segir einnig:
„Löreglan í Manchester leggur sig fram við að rannsaka ásakanir til að tryggja bestu mögulegu útkomu fyrir alla hlutaðeigandi og mun áfram vinna að því í samstarfi við önnur embætti að tryggja að einstaklingar hljóti stuðning í gegnum rannsóknarferli og að því loknu.“
Ekki spilað fótbolta í tvö ár
Gylfi hefur ekkert tjáð sig um málið frá því að það kom upp en Vísir ræddi við Sigurð Aðalsteinsson, föður Gylfa, í október síðastliðnum þar sem Sigurður sagðist hafa kallað eftir aðstoð utanríkisráðherra vegna málsins. Þar sagði Sigurður brotið á mannréttindum sonar síns.
Gylfi var nafngreindur í íslenskum fjölmiðlum 20. júlí 2021. Degi síðar birtust fréttir þess efnis að Gylfi harðneitaði þeim ásökunum sem bornar voru á hann. Þann 14. ágúst sama ár var greint frá því að Gylfi yrði áfram laus gegn tryggingu og hann settur í farbann.
Farbannið var svo ítrekað framlengt og samningur Gylfa við Everton rann út án þess að hann spilaði aftur fyrir liðið eftir handtökuna. Hann hefur ekki spilað fótbolta síðan vorið 2021.
Í júlí í fyrra sást Gylfi í fyrsta sinn á almannafæri síðan hann var handtekinn. Hann mætti á leik Íslands og Ítalíu á Evrópumóti kvenna í fótbolta sem fór fram í Manchester. Þar fékk hann að fylgjast með Karólínu Leu Vilhjálmsdóttur, frænku sinni, sem spilar með íslenska landsliðinu.
Frjálst að semja við hvaða félag sem er
Mál Gylfa hefur undanfarið verið á borði saksóknara krúnunnar í Bretlandi og nú er niðurstaðan sú eins og fyrr segir að ekki verður ákært.
Eins og fyrr segir rann samningur Gylfa við Everton út í fyrrasumar. Þessum 33 ára gamla leikmanni, sem skorað hefur 25 mörk í 78 A-landsleikjum fyrir Ísland, er því frjálst að semja við hvaða félag sem er í heiminum.
Vanda Sigurgeirsdóttir formaður KSÍ segir í samtali við fréttastofu að hún sé búin að frétta af vendingum í máli Gylfa líkt og aðrir, en að hún hafi ekki náð að kynna sér málið í þaula og vilji því ekki tjá sig um svo viðkvæmt mál að svo stöddu.