Riða greindist á bænum Syðri-Urriðaá í Miðfirði fyrir helgi, skömmu eftir að riða hafði greinst á bænum Bergstöðum, en þar eru ríflega 700 kindur sem þarf að aflífa. Það hefur þó ekki tekist hingað til, brennsluofninn í sorpeyðingarstöðinni Kölku er bilaður og sveitarstjórn Húnaþings vestra og Umhverfisstofnun hafa ekki fundið aðra leið til förgunar um helgina.
Sigurborg Daðadóttir, yfirdýralæknir hjá Matvælastofnun, segir að þau séu tilbúin til að grípa til aðgerða og bíði eftir niðurstöðu
„Við gátum ekki farið í aðgerðir í dag eins og við ætluðum vegna þess að förgunarleið er ekki klár. Það þýðir ekkert að fara af stað með aðgerðir nema að öll keðjan sé til reiðu, að við getum losnað við hræinn á öruggan hátt,“ segir Sigurborg.
Tíminn er þó naumur en ef það tekst ekki að finna förgunarleið á morgun munu þau þurfa að fresta aðgerðum fram yfir sauðburð, sem fer fram í kringum mánaðarmótin.
„Það er í rauninni bara í klukkustundum talið núna, sem að við höfum rými til þess að fara í aðgerðir,“ segir Sigurborg en gangi það ekki upp á morgun sé það nálægt burði að það sé ekki forsvaranlegt að fara í slíkar aðgerðir fóstranna og fjárins vegna.
Þurfa að aflífa fleiri gripi á öðrum bæjum
Til að kanna hvort að riðan hafi náð að dreifa sér víðar stendur til að taka sýni úr gripum sem hafa farið frá Syðri-Urriðaá á aðra bæi.
„Smitrakning hefur leitt í ljós að það eru um tuttugu gripir enn þá á lífi sem að við þurfum að ná í og fjarlægja hugsanleg smitefni, það er að segja fjarlægja dýrin, aflífa og taka úr þeim sýni og þetta gengur svona koll af kolli,“ segir Sigurborg.
Það myndi taka um viku eftir að dýrin eru aflífuð að fá niðurstöðu frá Keldum, ef allt gengur að óskum. Ekki hefur þó verið tekin ákvörðun að svo stöddu um hvenær hægt verði að fara í það.
„Við erum að einbeita okkur að þessum förgunarmálum núna. Matvælastofnun er tilbúin í sínar aðgerðir en getur ekki hafið þær vegna þess að förgunarleið er ekki tilbúin,“ segir Sigurborg.
Sveitastjóri Húnaþings vestra segir í samtali við fréttastofu að allt kapp sé lagt á að finna förgunarleið, enda tíminn naumur.
Íbúafundur vegna málsins er á dagskrá annað kvöld þar sem fulltrúar Matvælastofnunar og Bændasamtakanna, auk sálfræðings og sérfræðings í riðurannsóknum, verða með erindi.