Sjómaðurinn Kristján Einar, stundum titlaður áhrifavaldurinn Kleini, var handtekinn í borginni Málaga á Spáni í mars árið 2022. Lítið fréttist af því sem hann var sakaður um að hafa gert á meðan hann var enn úti en í nóvember sama ár var honum sleppt úr fangelsi. Þá sagðist hann „hafa sögur að segja“.
Þær sögur sagði hann síðan þegar hann kom aftur heim til Íslands í sama mánuði. Hann kom í viðtal hér á Vísi þar sem hann sagðist hafa verið handtekinn eftir „fyllerísslagsmál“. Þá sagðist hann hafa verið dæmdur í sex ára fangelsi fyrir umrædd slagsmál en á endanum hafi lögfræðingur hans mútað yfirvöldum í Málaga til að koma honum út.
Samkvæmt dómnum yfir Kleina, sem Heimildin hefur undir höndunum, var hann þó ekki dæmdur fyrir fyllerísslagsmál, heldur ofbeldisfullt rán. Hann hafi, ásamt öðrum manni, rænt fjármunum af þriðja manni og svo reynt að ræna þann fjórða mann að nóttu til. Við ránið hafi þeir notast við oddhvassan hlut til að hóta fórnarlömbunum.
Dómurinn féll þann 17. nóvember síðastliðinn, skömmu áður en Kleini kom heim. Var hann dæmdur í þriggja ára og níu mánaða skilorðsbundið fangelsi. Skilorðsbundið fangelsi þýðir að viðkomandi þarf ekki að sitja inni brjóti hann ekki aftur af sér. Honum var því sleppt úr gæsluvarðhaldi skömmu eftir að dómur féll og hélt hann til Íslands.