Fótbolti

„Get ekki beðið eftir leiknum á móti City“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Mikel Arteta og lærisveinar hans í Arsenal eru enn á toppi ensku úrvalsdeildarinnar þrátt fyrir töpuð stig í seinustu þremur leikjum.
Mikel Arteta og lærisveinar hans í Arsenal eru enn á toppi ensku úrvalsdeildarinnar þrátt fyrir töpuð stig í seinustu þremur leikjum. Julian Finney/Getty Images

Mikel Arteta, knattspyrnustjóri Arsenal, var eðlilega svekktur eftir þriðja jafntefli liðsins í röð í ensku úrvalsdeildinni. Arsenal tók á móti botnliði Southampton og gróf sig ofan í djúpa holu snemma leiks.

„Ég er auðvitað vonsvikinn með úrslitin. Við gerðum okkur erfitt fyrir í byrjun leiks með því að gefa þeim eitt mark og svo annað,“ sagði Arteta, en hans menn gáfu gestunum mark á silfurfati strax á fyrstu mínútu áður en fyrrum Arsenalmaðurinn theo Walcott kom Southampton í 2-0 á 14. mínútu.

„Við héldum áfram að reyna og við sköpuðum okkur hvert færið á fætur öðru. Við létum á það reyna og andrúmsloftið undir lokin var þannig að við trúðum því allir að við myndum vinna.“

„Stuðningurinn sem við fáum og ástin sem við fáum er mögnuð og hjálpar leikmönnunum okkar ótrúlega mikið. Við vorum svo nálægt því að vinna. Ég sá engan vera að reyna að fela sig. Það voru allir að leggja sitt af mörkum og maður sá vel hvað leikmennirnir vildu þetta mikið,“ bætti Arteta við.

Arsenal er nú með fimm stiga forskot á toppi deildarinnar þegar liðið á aðeins sex leiki eftir. Manchester City situr í öðru sæti, en Englandsmeistararnir eiga tvo leiki til góða. Arsenal sækir Manchester City einmitt heim næstkomandi miðvikudag í leik sem gæti farið langleiðina með að ákvarða hvaða lið verður Englandsmeistari.

„Ég get ekki beðið eftir leiknum á móti City. Það eru þessir leikir sem þig langar til að spila. Þegar allt er undir og þú þarft að vinna. “

„Það er það fallega við þessa íþrótt. Þú vilt vera í þessari stöðu. Við munum fara í frábæra ferð til Manchester og við mætum vel undirbúnir,“ sagði Spánverjinn að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×