Fótbolti

Miloš búinn að gera Rauðu Stjörnuna að serb­neskum meisturum

Aron Guðmundsson skrifar
Miloš Milojević hefur stýrt Rauðu Stjörnunni til sigurs í efstu deild Serbíu
Miloš Milojević hefur stýrt Rauðu Stjörnunni til sigurs í efstu deild Serbíu Visir/Getty

Rauða Stjarnan, sem leikur undir stjórn Miloš Milojević fyrrum þjálfara ís­lenskra liða á borð við Breiða­blik og Víking Reykja­vík, er serb­neskur meistari. Þetta varð ljóst eftir 4-1 sigur liðsins á TSC í kvöld.

Miloš var ráðinn þjálfari Rauðu Stjörnunnar í ágúst á síðasta ári og er liðið því að vinna serb­nesku deildina á sínu fyrsta tíma­bili undir stjórn hans en enn eru sex um­ferðir eftir af deildar­keppninni í Serbíu.

„Fyrst af öllu vil ég óska leik­mönnunum til hamingju með allt sem þeir hafa af­rekað hingað til. Þeir hafa sýnt stöðug­leika, sem er ekki auð­velt en virki­lega gott að ná,“ sagði Miloš í við­tali eftir leik.

Þá óskaði hann stuðnings­mönnum fé­lagsins og þjálfara­t­eymi sínu til hamingju með árangurinn en vildi sjálfur ekki fagna of mikið.

„Svona er ég bara sem manneskja, ég fagna ekki fyrr en verkinu er lokið,“ sagði Milos en fram undan er ná­granna­slagur milli Rauðu Stjörnunnar og Partizan Bel­grad.

Miloš var að­stoðar­þjálfari Rauðu Stjörnunnar frá árinu 2019 til 2021 en segja má að þjálfara­ferill hans hafi byrjað af al­vöru hér á landi, fyrst hjá Víkingi Reykja­vík og svo hjá Breiða­bliki.

Seinna meir átti Miloš eftir að færa sig um set yfir til Sví­þjóðar þar sem hann stýrði liðum á borð við Mjallby, Hammar­by og Mal­mö FF.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×