Véldrekinn Maleficent er nefndur eftir illmenninu í kvikmyndinni um Þyrnirós. Í íslenskri þýðingu var Maleficent kölluð Meinhyrna en í kvikmyndinni breyttist hún einmitt í dreka til þess að berjast við prinsinn. Angelina Jolie fór síðan með hlutverk Meinhyrnu í leikinni útgáfu Þyrnirósar sem kom út árið 2014.
Meinhyrna tekur þátt í atriðinu Fantasmic í skemmtigarðinum Disneyland. Þar kemur Meinhyrna og spýr eldi áður en Mikki mús kemur og bjargar deginum.
Á laugardaginn varð þó einhver bilun í eldkerfi Meinhyrnu og kviknaði í henni. Í myndböndum á samfélagsmiðlum má sjá starfsmenn garðsins biðja fólk um að yfirgefa svæðið á meðan eldurinn logar.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem kviknar í Meinhyrnu en það gerðist einnig í Flórída árið 2018. Á meðan málið er rannsakað munu engin brögð þar sem notast er við eld vera gerð í görðum Disney um allan heim.