Miley skaust fyrst fram á sjónarsviðið í Disney-þáttunum Hannah Montana, þá með sinn náttúrulega brúna hárlit.
Árið 2012 urðu ákveðin kaflaskil í lífi Miley þegar hún lét brúnu lokkana fjúka, klippti hárið alveg stutt og litaði það ljóst. Töldu aðdáendur að það væri hluti af tilraun hennar til þess að losa sig við barnastjörnustimpilinn. Skömmu síðar gaf hún út smellinn Wrecking Ball sem markaði upphafið að ákveðnum uppreisnarkafla í lífi Miley.

Stal senunni
Síðasta áratuginn hefur hún mátað sig við hinar ýmsu klippingar en hefur þó haldið sig alfarið við ljósa hárlitinn.
Það er því óhætt að segja að Miley hafi stolið senunni á The Daily Front Row tískuverðlaunahátíðinni í gær. Miley var fengin til þess að veita síðustu verðlaun kvöldsins en verðlaunin féllu í skuggann á nýja hárinu.
Það er hárgreiðslumaðurinn Bob Recine sem er snillingurinn á bak við hárið.

Vinsælli og hamingjusamari en nokkru sinni fyrr
Ferill Miley hefur náð nýjum hæðum eftir að hún gaf út smellinn Flowers fyrr á árinu. Hún gerði sér lítið fyrir og sló met á Spotify fyrir flestar hlustanir á einni viku, en laginu var streymt tæplega 100 milljón sinnum fyrstu vikuna sína á streymisveitunni.
Hún hefur verið í mikilli uppbyggingu eftir skilnaðinn við Liam Hemsworth árið 2019 og er sögð hamingjusamari og heilbrigðari en nokkru sinni fyrr.