Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra er nú á fundarferð um landið undir yfirskriftinni “Sjálfbært Ísland” þar sem hún ræðir um stöðu sjálfbærni, helstu áskoranir, tækifæri og valkosti til framfara. Um sjö fundi er að ræða. Einn af fundinum var á Hótel Selfossi síðdegis í gær. Tveir til þrír frummælendur eru með Katrínu á hverjum fundi og síðan eru umræður á eftir á nokkrum borðum.
Mikil matvælaframleiðsla fer fram á Suðurlandi í kringum landbúnaðinn og því er eðlilegt að spyrja Katrínu um lélegar upprunamerkingar á vörum á sama tíma og rætt er um sjálfbærni Íslands.
„Ég verð nú að segja það að það er ótrúlega mikilvægt að upprunamerkingar séu í lagi og ekki síður að við getum fræðst um það hvernig matvælin eru framleidd, hvert kolefnisspor þeirra er til dæmis,“ segir Katrín.
En hvað finnst henni um að það sé verið að merkja erlent kjöt með íslenskum fána?
„Já og svo stendur kannski með smásæju letri að það sé frá Íslandi, það er auðvitað ekki boðlegt, það er bara ekki boðlegt.“
Hvernig getum við breytt þessu?
„Þarna þarf samstillt átak því það eiga að vera nokkuð skýrar reglur um það að það á að upprunamerkja matvæli rétt og yfirleitt eins og ég segi stendur þetta þá með smáa letrinu hvaðan kjötið kemur en auðvitað þurfum við að taka öll höndum, saman stjórnvöld, framleiðendur, innflytjendur og verslun,“ segir Katrín.

Talandi um matvæli. Katrín segir að kleinur, vonandi íslenskar, séu nánast í boði á öllum sjálfbærni fundunum vítt og breytt um landið.
„Þær eru mjög góðar hér á Selfossi, ég get alveg vottað það. Ég elska kleinur en ég á náttúrulega eftir fjóra fundi, þannig að nú kemur í ljós hvar bestu kleinur landsins eru, það kemur í lok fundanna og þá mun ég opinbera það,“ segir Katrín hlæjandi.
