Sveindís Jane var í byrjunarliði Wolfsburg þegar liðið lagði Arsenal á uppseldum Emirates-leikvanginum í Lundúnum í gær, mánudag. Sigurinn var heldur dramatískur en að loknum venjulegum leiktíma var staðan jöfn 2-2.
Því þurfti að framlengja og það var ekki fyrr en á 118. mínútu sem sigurmarkið leit dagsins ljós. Lokatölur 2-3 og Wolfsburg á leið í úrslit Meistaradeildarinnar þann 3. júní næstkomandi gegn Barcelona.
Með þessu varð Sveindís Jane aðeins þriðji Íslendingurinn til að áorka það að komast í úrslit Meistaradeildar Evrópu.
Sara Björk fór tvívegis í úrslit með Lyon, í bæði skiptin stóð liðið uppi sem Evrópumeistari. Vorið 2020 kom Sara Björk inn af bekknum í 3-1 sigri gegn Wolfsburg. Kom hún inn af bekknum og gulltrygði sigur Lyon með marki á 88. mínútu leiksins.
Tveimur árum síðar, 2022, sat hún á bekknum er Lyon kom á óvart og lagði það sem virtist vera óstöðvandi lið Barcelona í úrslitum. Loaktölur þar einnig 3-1 Lyon í vil.
Eiður Smári Guðjohnsen fór svo með Barcelona í úrslit vorið 2009 þar sem liðið lagði Manchester United 2-0. Eiður Smári sat á bekknum allan leikinn.
Sveindís Jane er því komin í fámennan hóp leikmanna. Nú er bara spurning hvort hún byrji leikinn í Eindhoven þann 3. júní og komist þar í enn fámennari hóp sem í dag inniheldur bara Söru Björk.