Talið er að yfir 500 manns hafi látið lífið í átökum sem nú standa yfir í Súdan milli hersins og sveita hershöfðingjans Mohamed Hamdan Daglo. Miklar sprengingar heyrðust í borginni Omdurman í gær og í Bahri og Kafouri, í norðurhluta Khartoum.
Læknasamtök Súdan segja „umhverfishörmungar“ í uppsiglingu en líkum á götum Khartoum fjölgar og margir hafa neyðst til að drekka úr ánni Níl vegna vatnsskorts, sem hefur leitt til útbreiðslu alvarlegra sjúkdóma.
Læknasamtökin, Alþjóðaheilbrigðisstofnunin og Rauði krossinn segja hættu á því að heilbrigðiskerfið hreinlega hrynji en sjúkrahús á bardagasvæðum hafa sum neyðst til að takmarka þjónustu verulega eða loka.
Sendifulltrúi Sameinuðu þjóðanna í málefnum Súdan, Volker Perthes, segir aðila hafa samþykkt að senda fulltrúa til viðræðna, mögulega í Sádi Arabíu. Það yrði forgangsmál að ná saman um fullt vopnahlé en tímabundin hlé á átökum hafa ekki skilað árangri hingað til.
Gert er ráð fyrir að allt að 800 þúsund manns gætu flúið til nærliggjandi landa, að sögn framkvæmdastjóra Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna.