Fótbolti

Vinicius undirbýr sig fyrir Man. City leikinn í sérstökum súrefnisklefa

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Vinícius Júnior fagnar sigri Real Madrid í bikarúrslitaleiknum um helgina. Brassinn ætlar að passa að hann verði klár annað kvöld.
Vinícius Júnior fagnar sigri Real Madrid í bikarúrslitaleiknum um helgina. Brassinn ætlar að passa að hann verði klár annað kvöld. AP/Jose Breton

Vinícius Júnior og félagar í Real Madrid tryggðu sér spænska bikarmeistaratitilinn með sigri á Osasuna í úrslitaleik á laugardagskvöldið.

Real vann leikinn með tveimur mörkum frá Brasilíumanninum Rodrygo og það fyrra kom eftir undirbúning Vinícius Junior.

Vinícius hefur átt frábært tímabil með Real Madrid og er algjör lykilmaður í sóknarleik liðsins.

Það skiptir því miklu máli að hann sé klár í slaginn í fyrri undanúrslitaleiknum á móti Manchester City í Meistaradeildinni. Sá leikur er strax annað kvöld. Það er því ekki langur tími á milli tveggja mikilvægra leikja.

Vinícius gerði sitt til að hraða endurheimtunni eftir bikarúrslitaleikinn en hann sýndi mynd af sér í sérstökum súrefnisklefa á heimili sínu í Madrid.

Hér fyrir neðan má sjá mynd af kappanum í klefanum.

Hinn 22 ára gamli Vinícius Júnior hefur skorað 22 mörk og gefið 21 stoðsendingu í 50 leikjum í öllum keppnum á leiktíðinni þar af er hann með sex mörk og fimm stoðsendingar í tíu leikjum í Meistaradeildinni.

Stuðningsmenn Real Madrid fagna því að þeirra maður er tilbúinn að leggja mikið á sig til að vera ferskur í leiknum á móti Manchester City. Liverpool fólk gleymir því ekki að þessi snjalli Brassi var með tvö mörk og tvær stoðsendingar í tveimur sigurleikjum á móti Liverpool í sextán liða úrslitum Meistaradeildarinnar fyrr á þessari leiktíð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×