Tilkynnt var um starfslok Helga um miðjan febrúar. Hann hefur verið forstjóri Regins frá stofnun fyrir fjórtán árum. Halldór Benjamín Þorbergsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, tekur við forstjórastólnum á morgun.
Í árshlutareikningi Regins fyrir fyrstu þrjá mánuði ársins kemur fram að kostnaður vegna starfsloka Helga upp á 48 milljónir króna sé gjaldfærður á ársfjórðungnum.
Rekstrartekjur Regins námu rúmum 3,2 milljörðum króna á fjórðungnum. Þar af voru leigutekjur rúmir þrír milljarðar króna.
Í tilkynningu um uppgjörið kemur fram að breytingar hafi orðið á eignasafni félagsins sem hafi haft áhrif á leigutekjurnar. Þannig hafi tekjuberandi fermetrum fækkað á milli ára og eignum sömuleiðis. Eignasafnið minnkaði um tvö prósent en leigurtekjurnar hækkuðu um sextán prósent.
Rekstrarhagnaður fyrir söluhagnað, matsbreytingu og afskriftir (EBITDA) var 2,1 milljarðar króna. Það var þrettán prósent hækkun frá sama tímabili í fyrra.
Reginn á hundrað fasteignir sem eru saman um 373 þúsund fermetrar. Útleiguhlutfall þess var um 97,5 prósent.