Samkvæmt heimildum Vísis er þegar mikil hálka í Norðurárdal og bílar hafa farið út af veginum þar. Stuðningsmenn Vals verða því að fara varlega á leið sinni norður. Hægt er að fara lengri leiðina um Laxárdalsheiði en sá vegur er vissulega ekki sérstakur.
Holtavörðuheiði: Búið er að loka heiðinni út af slæmum akstursskilyrðum. #færðin
— Vegagerðin | Iceland Roads (@Vegagerdin) May 15, 2023
Hannes Jónsson, framkvæmdastjóri KKÍ, tjáði íþróttadeild að dómarar leiksins séu fastir upp á heiði í lokuninni. Þeir voru þó pollrólegir og stóðu af sér mesta storminn. Þar sé aftur á móti mikill skafrenningur og lítið skyggni. Leikmenn Vals fóru norður í gær og bíða bara eftir leiknum á Króknum.
Vísir veit til þess að einhverjir séu að setja naglana sína aftur undir bílinn áður en haldið verður í svaðilför á Krókinn.
Vonandi komast allir heilu og höldnu á þennan risaleik í Skagafirðinum á eftir.
Uppfært klukkan 13.31:
Vegagerðin er búin að opna heiðina. Upphaflega átti hún ekki að opna aftur fyrr en 14.30 en blessunarlega náðist að opna fyrr. Færðin er þó ekki sérstök.
Holtavörðuheiði: Búið er að opna heiðina en þar er hálka. Vegfarendur eru hvattir til að aka varlega. #færðin
— Vegagerðin | Iceland Roads (@Vegagerdin) May 15, 2023