Umræða um stýrivaxtahækkun Seðlabankastjóra var fyrirferðarmikil á Alþingi í dag þar sem var verið að afgreiða síðustu mál fyrir þinglok.
Stjórnarandstaðan gagnrýndi stjórnvöld fyrir meint aðgerðarleysi og óskaði þingflokkur Samfylkingarinnar eftir sérstakri umræðu um efnahagsmál. Stjórnarliðar sögðu stjórnvöld aftur á móti ekki huga að neinu öðru nánast en þessum málum.
Tilefni til að auka aðhald enn frekar
Bjarni Benediktsson sagði í viðtali við Heimi Má Pétursson í kvöldfréttum Stöðvar 2 að núverandi ástand gæfi ríkisstjórninni tilefni til að auka aðhald enn frekar. Slíkar aðgerðir myndu birtast í breytingum á fjármálaáætlun.
Munu birtast einhverjar nýjar aðgerðir í ljósi þessarar stöðu sem nú er upp komin?
„Það sem hefur gerst síðan við settum saman fjármálaáætlun, sem er grunnur fyrir fjárlög næsta árs, er að við höfum séð ívið verri verðbólgutölur og meiri vaxtahækkanir,“ sagði Bjarni.
„Það gefur okkur tilefni til að spyrja hvort við eigum að auka aðhaldið frekar. Það myndi birtast í breytingum á áætluninni sem færi fram á þinginu og myndi síðan endurspeglast í fjárlögum fyrir næsta ár,“ sagði Bjarni um aðgerðir ríkisstjórnarinnar.
Þarf að huga að orsökum verðbólgunnar
Bjarni sagði að tekjur ríkisins hefðu aukist mjög mikið en þær hugmyndir sem hefðu komið fram í umræðunni sneru fyrst og fremst að því að lifa með verðbólgunni. Hann sagði að það þyrfti að huga að orsökum verðbólgunnar og ráðast í rót vandans.
„Bara núna á fyrsta ársfjórðungi þessa árs kom í ljós að tekjurnar stefna á að vera um 75 milljörðum meiri en við gerðum ráð fyrir um jólin. Ég gæti alveg trúað að nýjasta uppfærsla á þessum tölum myndi sýna að sá tekjuauki er að vaxa þannig tekjurnar eru sannarlega að skila sér,“ sagði Bjarni.
„Það sem við heyrum í umræðunni í dag eru kannski fyrst og fremst hugmyndir um viðbrögð við verðbólgunni þar sem er verið að reyna að lifa með ástandinu.“
„Ríkisstjórnin hefur sýnt það í verki að það þarf að huga að tekjulágu fólki. En núna er líka tími og mikilvægur tímapunktur að huga að orsökum verðbólgunnar og ráðast að rót vandans þannig að aukið aðhald í ríkisfjármálum hlýtur að vera eitthvað sem við setjum á oddinn þegar við metum stöðuna í ljósi nýjustu tíðinda,“ sagði Bjarni um viðbrögð við verðbólgunni.
Eigi að beita ríkisfjármálum til að ná tökum á ástandinu
Kemur til greina að kynna einhverjar aðgerðir áður en þing fer heim níunda júní?
„Við munum kynna, til dæmis, breytingar á almannatryggingabótum,“ sagði Bjarni um þær aðgerðir sem yrði ráðist í.
„En eins og segi eru flestar hugmyndir sem eru reifaðar hérna á þinginu á útgjaldahliðinni sem dregur úr aðhaldinu en eru að hluta til nauðsynlegar til að veita skjól fyrir viðkvæmustu hópana.“
„En ég er bara að benda á að það á ekki að reyna að lifa með verðbólguástandinu heldur beita ríkisfjármálunum til þess að ná tökum á ástandinu og slá verðbólguna niður,“ sagði Bjarni Benediktsson.