Napoli hefur átt frábært tímabil. Liðið stakk öll önnur lið af í ítölsku úrvalsdeildinni og í dag er akkúrat mánuður síðan liðið tryggði sér meistaratitilinn í fyrsta skipti í rúm þrjátíu ár.
Í dag mætti liðið Sampdoria á heimavelli en gestirnir voru nú þegar fallnir niður í Serie B.
Markahrókurinn Victor Osimhen kom Napoli í 1-0 á 64. mínútu þegar hann skoraði úr vítaspyrnu og Giovanni Simeone skoraði annað mark Napoli sex mínútum fyrir leikslok.
Lokatölur 2-0 en fleiri leikir eru á dagskrá í ítölsku deildinni í kvöld og þar ræðst hvort Juventus nái sæti í Evrópudeildinni á næsta tímabili og eins hvort Hellas Verona eða Spezia fylgja Sampdoria og Cremonese niður í Serie B.