Fótbolti

Stóðu heiðurs­vörð um tár­votan Lahoz eftir að hann dæmdi sinn síðasta leik

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Antonio Mateu Lahoz dæmdi sinn síðasta leik í spænsku úrvalsdeildinni í gær.
Antonio Mateu Lahoz dæmdi sinn síðasta leik í spænsku úrvalsdeildinni í gær. Rafa Babot/Getty Images

Það var tilfinningaþrungin stund fyrir dómarann Antonio Mateu Lahoz eftir leik Mallorca og Rayo Vallecano í spænsku úrvalsdeildinni, La Liga, í gær. Lahoz var að dæma sinn síðasta leik í deildinni og leikmenn liðanna stóðu heiðursvörð um dómarann eftir að hann flautaði til leiksloka.

Fjölskylda dómarans var mætt á völlinn til að fylgjast með hans síðasta leik í spænsku úrvalsdeildinni. Lahoz lét tilfinningarnar ná yfirhöndinni er hann nálgaðist fjölskyldu sína og leikmenn og áhorfendur fögnuðu honum á leið sinni af vellinum.

Þessi 46 ára gamli Spánverji hefur verið dómari að atvinnu frá árinu 1999 og dæmt í efstu deild á Spáni síðan árið 2008. Hann er þó líklega þekktastur fyrir að gefa metfjölda gulra spjalda á HM er hann dæmdi leik Argentínu og Hollands í átta liða úrslitum á seinasta heimsmeistaramóti í Katar.

Lahoz hefur oft verið gagnrýndur fyrir stíl sinn sem dómari og eins og flestir sem taka að sér starfið hefur hann einnig oft verið umdeildur. Það er þó erfitt að segja að Lahoz hafi ekki átt farsælan feril sem dómari, en hann hefur dæmt á bæði HM og EM, sem og Ólympíuleikunum. Þá dæmdi hann einnig úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu árið 2021.

Lahoz hefur ekki enn gefið út hvað tekur við nú þegar dómaraferlinum á Spáni er lokið. Hann gæti tekið að sér dómarastarf í annari deild en í heimalandinu þar sem það var ákvörðun spænsku úrvalsdeildarinnar að leggja Lahoz til hliðar fyrir næsta tímabil, en hann hefur einnig gefið í skyn að hann gæti snúið aftur í sitt gamla starf sem íþróttakennari.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×