Það er óhætt að segja að Laxárdalur hafi opnað með stæl en elstu menn muna ekki eftir öðrum eins stærðartölum þar við opnun. Alls komu 58 urriðar á land og þeir stærstu voru 70-73 sm en þegar tölfræðin er skoðuð voru meira en helmingur allra veiddra fiska stærri en 59 sm. Munurinn á þeim svæðum sem eru mest sótt í Laxá, Laxárdalurinn og Laxá í Mý er sá að það veiðist meira í Laxá í Mý en fiskurinn er stærri í Laxárdalnum. Einhverjar óseldar stangir eru til í Laxárdalinn hjá Stangaveiðifélagi Reykjavíkur en þær verða líklega fljótar að fara eftir þessar fréttir af aflabrögðum norðan heiða.
