Innlent

Engar sér­stakar undan­þágur fyrir hjón við út­hlutun hjúkrunar­rýma

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Engar reglur virðast vera í gildi til að tryggja að hjón fái að dvelja saman á hjúkrunarheimili.
Engar reglur virðast vera í gildi til að tryggja að hjón fái að dvelja saman á hjúkrunarheimili. Getty

Engar sérstakar reglur eða undantekningar eru í gildi fyrir hjón við úthlutun hjúkrunarrýma, þar sem báðir einstaklingar hafa fengið færni- og heilsumat og bíða flutnings.

Þá liggja ekki fyrir upplýsingar um hversu mörg hjón dvelja á hjúkrunarheimilum en búa ekki saman né hversu mörg hjón búa saman á hjúkrunarheimili.

Þetta kemur fram í svörum heilbrigðisráðherra við fyrirspurn Þorbjargar Sigríðar Gunnlaugsdóttur, þingmanns Viðreisnar, um hjón á hjúkrunarheimilium.

Þorbjörg spurði meðal annars að því hversu mörg hjón bjuggu ekki saman árin 2018 til 2022 þrátt fyrir að dveljast bæði á hjúkrunarheimili á grundvelli færni- og heilsumats en þessar upplýsingar liggja ekki fyrir, samkvæmt svörum ráðherra.

Samkvæmt færni- og heilsumatsskrá eru 478 einstaklingar á biðlista eftir hjúkrunarrými en samkvæmt upplýsingum frá Landspítala voru 66 einstaklingar inniliggjandi á spítalanum með gilt færni- og heilsumat þann 15. maí síðastliðinn.

Af þeim voru 15 á skilgreindri biðdeild en 51 á öðrum deildum spítalans.

Þorgerður spurði einnig hvernig hjónum væri gert kleift að búa saman á hjúkrunarheimili þegar annað eða bæði hefðu fengið færni- og heilsumat.

„Í reglugerð um færni- og heilsumat vegna dvalar- og hjúkrunarrýma, nr. 466/2012, með síðari breytingum, kemur fram í 10. gr. að færni- og heilsumatsnefndir séu ábyrgar fyrir mati á dvalarþörf íbúa í því heilbrigðisumdæmi sem þær starfa. Í 5. gr. segir m.a. að verkefni nefndanna sé að leggja faglegt mat á þörf aldraðs fólks fyrir dvalarrými og hjúkrunarrými. Færni- og heilsumat er því forsenda flutnings í dvalar- og hjúkrunarrými. Rýmum er úthlutað í samræmi við mat nefndanna og óskir viðkomandi einstaklings um hjúkrunarheimili. Engar sérstakar reglur eða undantekningar eru í gildi fyrir hjón aðrar en þær að reynt er að mæta óskum einstaklinga að því marki sem hægt er,“ segir í svörum ráðherra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×