„Lægstbjóðanda var hafnað þar sem hann – samanlagt hjá báðum - stóðst ekki kröfur um lágmarksveltu síðustu þriggja ára. Krafan var um veltu upp á 50 prósent af þessu verki,“ segir G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar.
G. Pétur segir að næstlægsta boð, frá Jarðvali sf., hafi heldur ekki staðist kröfur um lágmarksveltu. Því hafi Vegagerðin ákveðið að ganga til samninga við Suðurverk hf. og Loftorku ehf. Kærumál valda því hins vegar að gerð samninga er í biðstöðu.

„Leitað var eftir samningum við næsta hæfa aðila en þar sem höfnunin var kærð þá stöðvast það ferli. Vegagerðin mun fara fram á það við kærunefnd útboðsmála að stöðvun verði aflétt meðan málið er í meðförum hjá nefndinni, en þetta hefur nýlega snúist við, áður þurfti að óska eftir stöðvun,“ segir G. Pétur.
„Verði stöðvun ekki aflétt mun það leiða til þess að framkvæmdir tefjast meðan málið er í meðförum nefndarinnar,“ segir upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar.
„Ég er búinn að kæra þetta. Við erum að bíða eftir niðurstöðu frá Kærunefnd útboðsmála,“ segir Óskar Ólafsson, framkvæmdastjóri Óskataks, og kveðst vonast eftir niðurstöðu öðru hvoru megin við helgi.
„Ég er búinn að sýna þeim fram á að ég var með veltu upp á 54 prósent,“ segir Óskar en tekur fram að þetta sé túlkunaratriði.

„Þetta er voðalega skrítið með Vegagerðina. Ef það kemur einhver nýr þá er eins og hann þurfi að ganga í gegnum þrautagöngu.
Það er verið að mismuna mönnum. Það er ekki samræmi milli útboða. Í Suðurlandsvegi um Ölfus, sem var verið að taka í notkun um daginn, þá var miðað við 25 prósent af veltu síðustu þrjú ár. Uppi á Kjalarnesi var miðað við 30 prósent. Núna er miðað við 50 prósent,“ segir Óskar.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2 um opnun tilboða: