Greint var frá því um helgina að Landssamtökin Þroskahjálp telji Reykjavíkurborg bótaskylda gagnvart öllum fötluðum umsækjendum á biðlista um sértæk húsnæðisúrræði eftir að þroskahamlaður maður lagði borgina í héraðsdómi vegna ógegnsæi biðlistanna og hlaut miskabætur.
Samtökin segja borgina brjóta með verklagi sínu á annað hundrað manns. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir borgina frekar vilja nýta fjármuni í þjónustu við fatlað fólk frekar en bætur. Árni Múli Jónasson framkvæmdastjóri Þroskahjálpar segir ámælisvert af borgarstjóra að blanda þessu saman. Fatlað fólk eigi lögbundinn rétt til húsnæðis og búið sé að brjóta á þeim rétti.
„Þessir einstaklingar eiga ekkert að þurfa að taka þann rétt sinn. Það eru ríki og sveitarfélög sem lögum samkvæmt eiga að greiða þetta eins og aðra þjónustu. Þannig að þessi framsetning er mjög ámælisverð og hún er villandi og hún er engan vegin samboðin borgarstjóra finnst okkur,“ segir Árni Múli.
Dagur sagði borgina jafnframt í óþolandi þröngri stöðu gagnvart málaflokki fatlaðs fólks. Milljarða vanti í málaflokkinn og að ríkið dragi lappirnar í málinu í sífellu.
„Við getum alveg tekið undir það, það er löngu tímabært að ríki og sveitarfélög leiði til lykta þessa eilífu togstreitu um hvernig eigi að kosta þjónustu við fatlað fólk. Þjónustu sem er mjög oft forsenda þess að fatlað fólk geti notið mannréttinda. Og hætti að togast á um þetta og tala um fatlað fólk eins og vondir valdamenn hér á fyrri öldum töluðu um hreppsómaga,“ segir Árni Múli jafnframt.
Það breyti þó engu um það að borgin verði að fara að lögum. „Það liggur fyrir dómur um það að það verklag sem Reykjavíkurborg hefur haft og hefur ennþá ekki breytt varðandi úthlutun um húsnæðis til fatlaðs fólks stenst ekki lög og því verður að breyta.“