Fótbolti

Mbappé gæti verið á leið til Man.Utd

Hjörvar Ólafsson skrifar
Óvissa er um framtíð franska landsliðsframherjans Kylian Mbappé. 
Óvissa er um framtíð franska landsliðsframherjans Kylian Mbappé.  Vísir/Getty

Forráðamenn Paris Saint-Germain eru reiðubúnir að selja stjörnuleikmann sinn, Kylian Mbappe, til Manchester United í sumar.

Þetta kemur fram í frétt Daily Mirror um framtíð franska landsliðsframherjans sem hefur tjáð yfirmönnum sínum hjá Paris Seint-Germain að hann hyggist ekki framlengja dvöl sína eftir að samningur hans við franska félagið rennur út sumarið 2024. 

Þessi vistaskipti ku hins vegar háð því að katarski fjárfestirinn Sheikh Jassim nái að eignast meirihluta hjá Manchester United á næstu vikum.  

Talið er að forráðamenn Paris Saint-Germain vilji ekki að Mbappé fari frítt frá Parísarliðinu næsta sumar og hugnist þeim betur að fá pening fyrir hann í sumar. Þar heilli það að djúpir vasar Sheikh Jassim greiði fyrir sölu hans til Manchester United verði að kaupum hans á enska félaginu. 

Real Madrid hefur einnig þráfaldlega verið nefndur sem næsti áfangastaður á ferli Mbappé. 

Svo gæti farið að hann verði fenginn til að leysa samlanda sinn og liðsfélaga hjá franska landsliðinu, Karim Benzema, af hólmi þar á bæ en Benzema gekk til liðs við Al-Ittihad á dögunum eftir áralanga þjónstu við Madrídarliðið. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×