Innlent

Á von á að vera gerð ráðherra

Kjartan Kjartansson skrifar
Frá þingflokksfundi Sjálfstæðisflokksins í Valhöll.
Frá þingflokksfundi Sjálfstæðisflokksins í Valhöll. Vísir/Sigurjón

Guðrún Hafsteinsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagðist gera fastlega ráð fyrir því að vera gerð dómsmálaráðherra fyrir þingflokksfund Sjálfstæðisflokksins sem haldinn er í Valhöll. Hún tæki við af Jóni Gunnarssyni sem býst við að verða almennur þingmaður. 

Fundur þingflokksins hófst á hádegi. Rætt hefur verið um að á honum verði ákveðið að Guðrún taki við sem dómsmálaráðherra af Jóni líkt og lagt var upp með við myndun núverandi ríkisstjórnar. Stuðningsmenn Jóns eru sagðir hafa þrýst á að hann fengi að sitja áfram sem ráðherra.

„Ég geri fastlega ráð fyrir því,“ sagði Guðrún þegar hún var spurð að því hvort hún byggist því að verða dómsmálaráðherra á leið sinni inn á fundinn.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, svaraði því ekki hvort að frekari breytingar yrðu gerðir á ráðherraliði flokksins en staðfesti gera ætti breytingar.

Jón sagði að fundurinn legðist vel í sig og að hann reiknaði með því að verða almennur þingmaður. Hann ætti ekki sérstaklega von á því að skiptin yllu sundrung innan flokksins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×