Handbolti

Torsóttur sigur í fyrsta leik á HM

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Íslenska U21 árs landsliðið keppir á HM í handbolta um þessar mundir.
Íslenska U21 árs landsliðið keppir á HM í handbolta um þessar mundir. HSÍ

Íslenska U21 árs landslið karla vann í dag nauman tveggja marka sigur gegn Marokkó í fyrsta leik liðsins á HM í handbolta, 17-15, í Aþenu í dag.

Íslensku strákarnir byrjuðu leikinn af miklum krafti og leit út fyrir að um auðveldan dag yrði að ræða fyrir liðið. Ísland komst fljótt í 3-0, en eftir það hægðist heldur betur á leiknum.

Marokkó jafnaði metin í 3-3 þegar heilar 17 mínútur voru liðnar af leiknum og ekki er hægt að segja að markaskorun hafi batnað mikið eftir því sem leið á. Íslenska liðið náði þór forystunni á ný og var skrefinu framar það sem eftir lifði fyrri hálfleiks, staðan 7-5 þegar liðin gengu til búningsherbergja.

Síðari hálfleikur bauð svo upp á meira af því sama þar sem lítið var skorað. Íslenska liðið náði fjögurra marka forskoti í stöðunni 12-8, en Marokkó jafnaði metin á ný í 13-13 þegar um tíu mínútur voru til leiksloka.

Marokkóska liðinu tókst svo loks að ná forystunni í fyrsta sinn í leiknum er liðið komst í 14-15 þegar um tvær og hálf mínúta var eftir, en íslenska liðið skoraði þrjú mörk á lokakaflanum gegn engu marki Marokkómanna og niðurstaðan varð því naumur 17-15 sigur íslensku strákanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×