AP-fréttastofan hefur eftir heimildum sínum hjá saksóknaraembætti sem sérhæfir sig í fjárglæpum að húsleitin tengist tveimur rannsóknum.
Önnur þeirra hófst þegar París fékk leikana árið 2017 en hin í fyrra. Sú fyrri snýr að meintum fjárdrætti á opinberu fé og frændhygli. Sú síðari tengist meintum hagsmunaárekstri og frændhygli í samningum sem franska undirbúningsnefndin og Solideo, innviðanefnd Alþjóða ólympíunefndarinnar, gerðu fyrir leikana.
Solideo hefur umsjón með byggingu og endurnýjun á fleiri en sextíu byggingum sem tengjast Ólympíuleikum næsta árs, þar á meðal Ólympíuþorpinu sjálfu í Saint-Denis-hverfi Parísar.
Franskir fjölmiðlar segja að húsleit hafi einnig verið gerð hjá nokkrum fyrirtækjum og ráðgjafarstofum sem tengjast skipulagningu leikanna. Franska skipulagsnefndin staðfesti að húsleit ætti sér stað og að hún ynni með yfirvöldum. Hún tjáði sig ekki efnislega um rannsóknina.
Forseti frönsku Ólympíunefndarinnar sagði af sér í maí í skugga harðvítugra innanhússdeilna.
Þetta eru þriðju Ólympíuleikarnir í röð þar sem ásakanir eru um misferli og spillingu. Spillingin er talin ná bæði til þess hvernig leikunum sjálfum en einnig ábatasömum samningum í tengslum við þá er úthlutað.