„Þetta var kjaftshögg þarna í lokin. Mér fannst við vinna vel saman og vorum þéttir. Auðvitað eru þeir með geðveikt fótboltalið og þetta var alltaf að fara að vera erfitt. Við múruðum svolítið fyrir markið en það er svekkjandi að fá þetta svona eftir alla þessa erfiðisvinnu sem við vorum búnir að gera,“ sagði Albert eftir leikinn í kvöld en sigurmark Portúgal kom í uppbótartíma síðari hálfleiks.
Íslandi gekk ágætlega að halda boltanum lengst af í leiknum, þó aðallega í fyrri hálfleik. Portúgal var þó betri aðilinn en Albert var sáttur með ýmislegt.
„Ég held við getum alveg verið smá stoltir hvernig við gerðum þegar við vorum með boltann og hvað við gerðum. Auðvitað hefðum við viljað nýta það aðeins getur, við fengum góðar stöður og þeir voru ekki að setja einhverja dúndurpressu á okkur.“
„Það að halda þeim í núlli í 90 plús það var gott og við þurftum bara einn séns til að komast í 1-0 en það datt hinu megin.“
Albert viðurkennir að í ljósi þess að Ísland sýndi góða takta í leikjunum tveimur í þessum landsliðsglugga sé svekkjandi að fá ekkert stig í pokann.
„Súrt að fá núll stig í þessum glugga. Mér finnst við vera að byggja eitthvað og getum byggt ofan á þennan glugga. Við áttum tvær frammistöður þrátt fyrir núll stig. Það er bara næsti leikur og þrjú stig þar.“
Hann segir að Ísland þurfi að einbeita sér að því að ná í sigra en ekki spá í öðrum leikjum riðilsins en Lúxemborg vann til dæmis óvæntan sigur á Bosníu-Hersegóvínu í kvöld.
„Fyrst og fremst er fókusinn á okkur. Við þurfum alltaf að vinna okkar leik til að eiga möguleika í þessum glugga.“