Fótbolti

Arsenal hækkaði tilboðið en West Ham neitaði aftur

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Declan Rice er að öllum líkindum á förum frá West Ham.
Declan Rice er að öllum líkindum á förum frá West Ham. Robin Jones/Getty Images

West Ham hefur neitað öðru tilboði Arsenal í enska landsliðsmiðjumanninn Declan Rice. West Ham er sagt vilja fá 100 milljónir punda fyrir leikmanninn.

Declan Rice er efstur á óskalista Arsenal og leikmaðurinn hefur nú þegar fengið loforð frá stjórn West Ham um að hann megi yfirgefa félagið. Þrátt fyrir að eiga aðeins eitt ár eftir af samningi sínum ætlar félagið þó ekki að leyfa honum að fara ódýrt.

Félagsskiptasérfræðingurinn David Ornstein greinir frá því á The Athletic að Arsenal hafi boðið nágrönnum sínum allt að 90 milljónir punda fyrir leikmanninn, en það samsvarar um 15,7 milljörðum króna. Arsenal myndi þá upphaflega greiða 75 milljónir punda fyrir þjónustu Rice, en 15 milljónir gætu bæst við í árangurstengdum bónusgreiðslum og Rice hefði því orðið dýrasti leikmaður Arsenal frá upphafi.

Forráðamenn West Ham hafa hins vegar hafnað tilboðinu. Félagið er sagt vilja í það minnsta 100 milljónir punda fyrir leikmanninn og Arsenal á því enn aðeins í land.

Hinn 24 ára gamli Declan Rice hefur verið eftirsóttur undanfarin ár, en miðjumaðurinn hefur leikið 204 deildarleiki fyrir West Ham og 43 leiki fyrir enska landsliðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×