Þetta kemur fram í skýrslu rannsóknarnefndar samgönguslysa um banaslys sem varð á hjólastíg meðfram Sæbraut 10. nóvember 2021. 56 ára karlmaður, ökumaður rafhlaupahjóls, lést í slysinu eftir að hafa hlotið háorkuáverka, líkt og í alvarlegu bílslysi. Ökumaður létta bifhjólsins slasaðist alvarlega og kvaðst ekki muna eftir slysinu.
Slysið átti sér stað að morgni þegar ökumaður rafhlaupahjólsins var á leið austur en ökumaður létta bifhjólsins var á leið vestur sama hjólastíg. Myrkur var þennan morguninn og yfirborð stígsins blautt en hálkulaust.
„Áreksturinn var harður og bæði hjólin skemmdust mikið. Brak úr þeim dreifðist um svæðið. Engin vitni voru að slysinu,“ segir í skýrslunni. Sennilegt er talið að rafhlaupahjólið hafi stöðvast alveg og jafnvel kastast til baka við áreksturinn, í ljósi þess að bifhjólið var 45 kg þyngra en hlaupahjólið.
Hraði upp á 51 km/klst
Rafhlaupahjólið var af gerðinni Kaabu Electric Scooter Mantis og gaf söluaðili upp 25 km/klst hámarkshraða en samkvæmt upplýsingum framleiðanda er mögulegur hámarkshraði 60 km/klst. Samkvæmt umferðarlögum fellur hjólið undir flokk hjóla hverra hámarkshraði er 25 km/klst.

Í skýrslunni segir að tengi á rafmagnsvír, sem stjórnar takmörkun á hraða hjólsins, hafi ekki verið tengt og ósennilegt er talið að það hafi aftengst í slysinu. Við hraðaprófun á rafhlaupahjólinu mældist mesti hraði 51,2 km/klst.

Leggja til að aftenging hraðatakmarkara verði bönnuð
Leyfilegur hámarskhraði létta bifhjólsins er 45 km/klst og er óheimilt að aka þeim á gangstéttum, gangstígum og hjólreiðastígum.
Ekki var unnt að meta að fullu hraða ökutækjanna við áreksturinn. Skemmdir á hjólunum, mat á áverkum ökumanna, sérstaklega á hinum látna, sem og niðurstöður rannsókna á mögulegum hámarkshraða bentu þó til þess að um talsverðan samanlagðan hraða hjólanna hafi verið að ræða.
Í skýrslunni eru gerðar tillögur um endurskoðun umferðarlaga.
„Rannsóknarnefnd samgönguslysa beinir þeirri tillögu til Innviðaráðuneytis að stuðla að skjótri meðferð lagabreytinga á umferðarlögum sem snúa að bættu öryggi smáfarartækja í umferðinni,“ segir í skýrslunni og vísað til löggjafar Norðmanna sem sé framsækin á þessu sviði. Skýra þurfi kröfur til smáfarartækja og kveða sérstaklega á um þau í umferðarlögum. Þá verði að banna að aftengja hraðatakmarkara þannig að mögulegur hámarskhraði verði meiri en 25 km/klst.