Handbolti

Fær­eyingar skelltu Evrópu­meisturum Spánar og unnu riðilinn

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Hákun West av Teigum skoraði átta mörk.
Hákun West av Teigum skoraði átta mörk. IHF

Færeyska landsliðið í handknattleik skipað drengjum 21 árs og yngri heldur áfram að skrifa söguna. Í gær, föstudag, vann liðið ótrúlegan sigur á Evrópumeisturum Spánar og fór því áfram í milliriðil með fullt hús stiga.

Færeyjar og Spánn voru jöfn að stigum í D-riðli fyrir lokaleik riðilsins. Bæði höfðu unnið tvo leiki af tveimur og því var ljóst að liðið sem myndi vinna færi í milliriðil með tvö stig en hitt yrði án stiga.

Færeyingar gerðu sér lítið fyrir og keyrðu yfir Spán í upphafi leiks, staðan í hálfleik var 21-10 Færeyjum í vil. Spánverjar komu til baka í þeim síðari en á endanum unnu Færeyjar þriggja marka sigur, lokatölur 34-31.

Isaak Vedelsböl og Hákun West av Tei­um skoruðu átta mörk hvor og voru markahæstir í liði Færeyja.

Mikill uppgangur er í handboltanum í Færeyjum en A-landslið karla mun taka þátt á EM í Þýskalandi í janúar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×